UM FAB LAB

Fab Lab er stytting á enska heitinu ,,fabrication laboratory” og er stundum kölluð stafræn smiðja á íslensku. Markmið með smiðjunum er að hvetja einstaklinga og frumkvöðla til að láta hugmyndir sínar verða að veruleika, skapa tækifæri til vinnu við frumgerðasmíð og vöruþróun með því að bjóða upp á aðgang að stafrænum framleiðslutækjum og búnaði af ýmsum toga.

Hugmyndin að Fab Lab kemur frá þekktum uppfinninga- og vísindamanni, Neil Gershenfeld prófessor við Institude of Technology (MIT) í Massachusetts. Hugmynd hans var einföld; að bjóða upp á umhverfi, færni, háþróaða tækni og efni til að búa til hluti, á einfaldan og hagkvæman hátt hvar sem er í heiminum. Einnig að þessi möguleiki væri öllum aðgengilegur; frumkvöðlum, nemendum, listamönnum, smærri fyrirtækjum og í raun öllum sem vilja skapa eitthvað nýtt og/eða vinna að persónumiðaðri framleiðslu.

Hugmynd Gershenfeld hefur svo sannarlega orðið að raunveruleika því í dag er orðið til alþjóðlegt samstarfsnet 1200 Fab Lab smiðja sem staðsettar eru víða um heiminn. Samstarfið milli smiðjanna tengir saman einstaklinga, samfélög og fyrirtæki og gefur færi á samstarfi, sameiginlegri lausnaleit og hugstormun. Þetta samstarfsnet hefur einnig dreift sér um Ísland, og árið 2018 eru sjö starfandi Fab Lab smiðjur á Íslandi.

Í Fab Lab smiðjunum gefst einstaklingum kostur á að stunda nám í Fab Academy. Námið nær yfir sex mánaða tímabil og hefst í janúar og lýkur í júní ár hvert. Inntak námsins snýr að stafrænni framleiðslu; hvernig einstaklingar geta hannað og framleitt næstum hvað sem er hafi þeir aðgang að tækjum og búnaði eins og er til staðar í öllum Fab Lab smiðjum.